Goluskáld

Laugardagur 11. október kl. 15:00.
Kaffi Gola, Hvalsnesi.

Ljóðaupplestur í Kaffi Golu laugardaginn 11. okt. 2025 kl. 15.

Nokkur verðlaunaskáld lesa ný og eldri ljóð á Hvalsnesi þar sem m.a. stórskáldið Hallgrímur Pétursson þjónaði um nokkurra ára bil og skildi eftir stein til minningar um dóttur sína Steinunni. Skáldin fjalla m.a. um fegurð, sorg, áföll, gleði.

Anna Björg Hjartardóttir er eigandi og framkvæmdastjóri heildverslunarinnar Celsus ehf. Hún hefur áhuga á ljóðagerð og söng og er í tónlistarnámi en hún hefur komið fram sem einsöngvari víða á viðburðum. Anna Björg vann til verðlauna í ljóðasamkeppni Ljósberans 2023. Hún hefur áhuga á heimspeki og heldur fyrirlestra um friðarmál og búddisma. Hún er virk í alþjóða friðar-, menntunar og menningarsamtökum Soka Gakkai Int.

Draumey Aradóttir er rithöfundur og skáld, búsett í Hafnarfirði. Auk þýðinga hefur hún gefið út tvær barnabækur og sex ljóðasöfn. Hún hefur hlotið ótal viðurkenningar fyrir ljóð sín. Nýjasta ljóðabók hennar, Brimurð, kom út fyrr á þessu ári. Þrjár síðustu bækur hennar, Varurð, Einurð og Brimurð eru ljóðræn för gegnum óttann, áföll í móðurkviði og eilífa ást sem nær gegnum allar víddir.

Garibaldi (Garðar Baldvinsson) er fæddur í Reykjavík 1954 og hefur ort ljóð í áratugi. Ljóðin í sjötíu bragandi dúfum sem kom út í fyrra lýsa sambandi skáldsins við yngsta bróður sinn og erfiðu lífi þeirra en einnig kærleika og von. Tvö ljóðanna hlutu verðlaun í ljóðasamkeppni Ljósberans 2023. Væntanleg bók hans, Þagnafár, sýnir líf föður hans og flótta hans frá áföllum í bernsku sem brjótast fram þegar hann jarðsetur yngsta son sinn.

Margrét Lóa Jónsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1967. Í fyrra hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir 12. ljóðabók sína, Pólstjarnan fylgir okkur heim. Fyrsta ljóðabók Margrétar, Glerúlfar, kom út 11. október 1985. Margrét Lóa hefur gefið út skáldsögu og þýtt ljóð, einkum úr spænsku. Einnig hefur hún starfrækt listagalleríið Marló og bókaútgáfu með sama nafni. Margrét Lóa hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ljóðagerð sína.

Ragnheiður Lárusdóttir hefur skrifað ljóð frá því að hún lærði að skrifa. Árið 2020 hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssona fyrir ljóðabókina 1900 og eitthvað en í fyrra kom út bókin Veður í æðum sem er safnbók og inniheldur allar þær fjórar bækur sem hún hefur skrifað til þessa. Í nýju bókinni yrkir Ragnheiður um þá sáru reynslu að horfa á dóttur sína lenda í fjötrum fíknar – en líka um þá töfra tilverunnar sem umlykja okkur og vonina sem glóir víða.
Eftir Ellen Agata Jónsdóttir 7. október 2025
Í Gula húsinu verður sýnd stuttmynd eftir Óskar Kristinn Vignisson sem fjallar myndrænt um áhrif hamfaranna á samfélagið í Grindavík. Myndin er 15 mínútna löng.
Eftir Ellen Agata Jónsdóttir 7. október 2025
Svarta Pakkhúsið, Laugardaginn 11. október kl. 15:00
Eftir Ellen Agata Jónsdóttir 7. október 2025
Rokksafn Íslands er fjölskylduvænt og gagnvirkt safn sem fjallar um sögu popp- og rokktónlistar á Íslandi. Á safninu má finna tímalínu sögu íslenskrar tónlistar, allt frá árinu 1835 til dagsins í dag. Í sýningunni er fjallað um listamenn á borð við Björk, Hljóma, Of Monsters and Men, Sigur Rós, Kaleo, Stuðmenn, Elly Vilhjálms, Bubba og margra fleiri. „Gagnvirki plötuspilarinn“, eins og hann er jafnan kallaður, gerir gestum kleift að velja plötu sem leiðir þá í gegnum sögu íslenskra tónlistarmanna á stórum gagnvirkum sýningarvegg. Gestir geta spreytt sig í hljóðbúri safnsins en þar er hægt að spila á rafgítar, rafbassa, rafmagnstrommusett og einnig er sérstakur söngklefi. Þá er einnig hægt að prófa að setja sig í sæti upptökumanns og prófa að hljóðblanda lagið Little talks með hljómsveitinni Of Monsters and Men. Í bíósal safnsins eru sýndar heimildarmyndir um íslenska tónlist. Rokksafn Íslands er fyrir alla – bæði þá sem þekkja og elska íslenska tónlist og þá sem vilja kynna sér hana. Börn munu sérstaklega njóta sín í “sound-lab”-inu og fá að fikta í gagnvirkum sýningaratriðum safnsins. Nánari upplýsingar á www.rokksafn.is
Eftir Ellen Agata Jónsdóttir 7. október 2025
Á sýningum Byggðasafns Reykjanesbæjar í Duus safnahúsum eru ratleikir í boði fyrir alla aldurshópa. Aðgangur er ókeypis um safnahelgina. Verið hjartanlega velkomin. - Finndu Músa áður en kötturinn Dúsa klófestir hann - Getur þú fundið...? á sýningunni Eins manns rusl er annars gull - Ævintýravera á sýningunni Hér sit ég og sauma - Veggjakrot í Bryggjuhúsinu
Fleiri viðburðir