Hulduefni, leiðsögn sýningarstjóra

Sunnudaginn 12. október kl. 14:00

Listasafn Reykjanesbæjar, Duusgata 2 - 8, 230 Reykjanesbær.

Hanna Styrmisdóttir sýningarstjóri Hulduefnis, fer um einkasýningu Vilhjálms Bergssonar. Tildrög þessarar sýningar er gjöf Vilhjálms til Listasafns Reykjanesbæjar, sem telur hátt í tvö hundruð verk, frá miðjum 6. áratugi 20. aldar fram á þriðja áratug þessarar aldar. Þar eru olíumálverk í meirihluta, en einnig eru tölvuverk, vatnslitaverk og teikningar hluti af gjöfinni. Eitt verk á sýningunni, Raðferli: 12 nr., kolteikning frá 2021, er í eigu listamannsins og sýnt með leyfi hans. 


Sýningin gefur mynd af þróun í verkum Vilhjálms frá 1959 til 2021, og dregur fram fágæta tæknilega færni hans og kunnáttu. Samtöl við Vilhjálm í gerð sýningarinnar, sem og áðurnefnd skrif, hafa gefið sjaldfengna innsýn í stígandi verka hans og það andríki og djúpsæi sem búa að baki. Í skrifunum tekst hann á við rannsókn sína í myndlist samhliða sköpuninni, og fangar með orðum þanka sína um myndlist almennt, áþreifanlega og óáþreifanlega þætti hennar, samtíma og sögu, hefð og byltingu; og hugarástand, þess sem skapar og þess sem skoðar.


Við ferðumst frá fyrstu abstrakt geómetrísku verkunum, í gegnum samlífrænar víddir út í takmarkalaust orkuljósrými á þeim sextíu árum sem sýningin spannar. Vilhjálmur lýsti snemma á ferlinum viðfangsefni sínu í myndlist sem víðtækri hlutdeild; undir hana féll allt milli himins og jarðar, frá minnstu ögn til stjörnuþoka, auk hinna ósæju víðlenda mannshugans. Hann varð ungur fyrir áhrifum af myrkri - gegnsæju gljámyrkri[1] - og ljósi – birtunni á bakvið Þorbjörn[2] - og með einum eða öðrum hætti varð hvort tveggja honum yrkis- og rannsóknarefni í áratugi.


Vilhjálmur Bergsson er fæddur í Grindavík 1937. Hann sótti myndlistarnám í Reykjavík á sjötta áratugnum og hélt að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík (1958) til Kaupmannahafnar þar sem hann hélt áfram myndlistarnámi (1958-1960). Þaðan lá leiðin til Parísar þar sem hann stundaði nám við Académie de la Grande Chaumière (1960-1962).

Vilhjálmur varð félagi í SÚM 1969 og formaður þess frá 1971-1972. Hann dvaldi í Kaupmannahöfn 1963-1966 og 1972-1977, Madrid 1967-1968 og í París 1977-1978. Frá 1983-2000 bjó Vilhjálmur og starfaði í Düsseldorf í Þýskalandi. Frá 2000-2024 var Vilhjálmur búsettur og starfaði í Grindavík og hefur nú aðsetur í Vík í Mýrdal.


Vilhjálmur hefur haldið tugi einkasýninga á verkum sínum, m.a. í Gallerí SÚM, Norræna húsinu, Listasafni ASÍ, Listasafni Reykjavíkur, í Orangerie Benrath höll í Düsseldorf og í Galerie AP, Kaupmannahöfn. Þá hefur hann tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Verk hans eru m.a. í eigu Listasafns Reykjanesbæjar, Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Háskóla Íslands, Listasafns Gautaborgar, Hässelby kastala í Stokkhólmi, Gentofte Kunstvenner, Charlottenlund og Kunstversammlung í Düsseldorf.


Sýningin stendur til og með 4.janúar 2026.


Hanna Styrmisdóttir er sýningarstjóri Hulduefnis og tímabundið starfandi sérfræðingur í Listasafni Reykjanesbæjar.


Áður hefur Hanna m.a. verið prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, stýrt Listahátíð í Reykjavíkog verið sýningarstjóri Íslenska skálans

á Feneyjatvíæringnum í myndlist.


Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar er styrkt af Myndlistarsjóði. 


Eftir Ellen Agata Jónsdóttir 7. október 2025
Í Gula húsinu verður sýnd stuttmynd eftir Óskar Kristinn Vignisson sem fjallar myndrænt um áhrif hamfaranna á samfélagið í Grindavík. Myndin er 15 mínútna löng.
Eftir Ellen Agata Jónsdóttir 7. október 2025
Svarta Pakkhúsið, Laugardaginn 11. október kl. 15:00
Eftir Ellen Agata Jónsdóttir 7. október 2025
Rokksafn Íslands er fjölskylduvænt og gagnvirkt safn sem fjallar um sögu popp- og rokktónlistar á Íslandi. Á safninu má finna tímalínu sögu íslenskrar tónlistar, allt frá árinu 1835 til dagsins í dag. Í sýningunni er fjallað um listamenn á borð við Björk, Hljóma, Of Monsters and Men, Sigur Rós, Kaleo, Stuðmenn, Elly Vilhjálms, Bubba og margra fleiri. „Gagnvirki plötuspilarinn“, eins og hann er jafnan kallaður, gerir gestum kleift að velja plötu sem leiðir þá í gegnum sögu íslenskra tónlistarmanna á stórum gagnvirkum sýningarvegg. Gestir geta spreytt sig í hljóðbúri safnsins en þar er hægt að spila á rafgítar, rafbassa, rafmagnstrommusett og einnig er sérstakur söngklefi. Þá er einnig hægt að prófa að setja sig í sæti upptökumanns og prófa að hljóðblanda lagið Little talks með hljómsveitinni Of Monsters and Men. Í bíósal safnsins eru sýndar heimildarmyndir um íslenska tónlist. Rokksafn Íslands er fyrir alla – bæði þá sem þekkja og elska íslenska tónlist og þá sem vilja kynna sér hana. Börn munu sérstaklega njóta sín í “sound-lab”-inu og fá að fikta í gagnvirkum sýningaratriðum safnsins. Nánari upplýsingar á www.rokksafn.is
Eftir Ellen Agata Jónsdóttir 7. október 2025
Á sýningum Byggðasafns Reykjanesbæjar í Duus safnahúsum eru ratleikir í boði fyrir alla aldurshópa. Aðgangur er ókeypis um safnahelgina. Verið hjartanlega velkomin. - Finndu Músa áður en kötturinn Dúsa klófestir hann - Getur þú fundið...? á sýningunni Eins manns rusl er annars gull - Ævintýravera á sýningunni Hér sit ég og sauma - Veggjakrot í Bryggjuhúsinu
Fleiri viðburðir